Notkunarskilmálar fyrir UroLog
Dagsetning: 22. febrúar 2019
- Almennt.
Astellas Pharma a/s, kennitala 10888638 (hér eftir nefnt „Astellas“, „við“, „okkur“ eða „okkar“), veitir aðgang að forriti fyrir fjartæki (hér eftir nefnt „forritið„ eða „UroLog-forritið“) sem hjálpartæki fyrir einstaklinga sem vilja hafa yfirsýn yfir þvaglát sín (hér eftir nefnt „þjónustan“). UroLog-forritið veitir yfirsýn yfir þvaglát og vökvaneyslu, sem auðveldar þér að eiga samskipti við lækni eða sérfræðing um heilsufar þitt.
Með UroLog-forritinu er afar auðvelt að skrásetja þvaglát eða vökvaneyslu. Skráningarnar birtast myndrænt sem ýmist dags-, viku- eða ársyfirlit og gefa skýra mynd af umfangi einkenna. Þessir notkunarskilmálar gilda um notkun þjónustunnar (hér eftir nefndir „samningurinn“). Þjónustan er veitt án endurgjalds.
Þú þarft að samþykkja og staðfesta þennan samning til að geta notað þjónustuna. Þú verður að vera að minnsta kosti 18 ára eða hafa fengið leyfi hjá fullorðnum/forráðamanni til að geta notað þjónustuna. Þú þarft auk þess að vera með notandareikning, fartæki sem er samhæft við forritið, vera með forritið uppsett á tækinu og vera tengd(ur) við internetið. Astellas ábyrgist ekki að forritið sé samhæft við fartækið þitt.
Með því að smella í reitinn „Ég samþykki notkunarskilmálana“ við stofnun notandareikningsins staðfestir þú að þú samþykkir og staðfestir samninginn.
Ef þú samþykkir ekki samninginn eða uppfyllir ekki skilmálana í samningnum hefur þú ekki heimild til að fá aðgang að eða nota forritið eða þjónustuna.
- Breytingar á samningnum
Astellas er heimilt að gera af og til breytingar á samningnum eða setja inn viðauka við hann í tengslum við breytingar á lögum eða öðrum reglum eða ef breytingar eða uppfærslur á þjónustunni eiga sér stað. Ef við gerum breytingar á samningnum sem við teljum vera veigamiklar munum við tilkynna þér það með þrjátíu (30) daga fyrirvara í gegnum þjónustuna eða með því að nota samskiptaupplýsingarnar sem þú veittir þegar þú stofnaðir notandareikninginn þinn. Ef þú heldur áfram að nota þjónustuna eftir að slíkar breytingar taka gildi jafngildir það samþykki á breytingunum og að uppfærður samningur skuli gilda um þjónustuna. Þú hefur rétt á að segja samningnum upp hvenær sem er með því að eyða notandareikningnum og fjarlægja forritið úr fartækinu þínu, sjá nánar í lið 4, „Riftun“.
- Aðgengi að og notkun á þjónustunni
3.1 Um þjónustuna
Eftir að notandareikningur er stofnaður gerir þjónustan þér kleift að færa persónuupplýsingar um þig inn í gagnagrunn. Þjónustan getur því næst tekið saman upplýsingar sem þú hefur veitt og sem þú og/eða læknirinn þinn getið síðan nýtt í greiningarskyni.
3.2 Notandareikningur
Til að fá aðgang að þjónustunni verður þú að stofna notandareikning. Þú ábyrgist að upplýsingarnar sem þú veitir í tengslum við stofnun notandareikningsins séu heildstæðar, sannar og réttar og ábyrgist að uppfæra þær upplýsingar þegar þörf krefur.
Aðgangsorðið sem þú velur til að geta notað þjónustuna tryggir öryggi notandareikningsins þíns. Þér ber að líta á aðgangsorðið sem trúnaðarmál og gæta þess að aðrir fái ekki aðgang að notandareikningnum þínum. Þú berð ábyrgð á öllum aðgerðum í tengslum við notkun á notandareikningnum og aðgangsorðinu. Ef notandanafnið þitt eða aðgangsorðið glatast eða er stolið eða ef þú hefur ástæðu til að ætla að einhver hafi fengið aðgang að notandareikningnum þínum í heimildarleysi skaltu tilkynna það tafarlaust og breyta aðgangsorðinu þínu eins fljótt og auðið er.
- Riftun
Þú hefur rétt á að rifta samningnum hvenær sem er með því að biðja um að notandaupplýsingum um þig verði eytt. Ef þú hefur samband við Astellas á: kontakt.dk@astellas.comog tilkynnir að þú viljir láta eyða notandaupplýsingum um þig verða allar persónuupplýsingar sem vistaðar hafa verið um þig gerðar ópersónugreinanlegar.
Hafir þú ekki notað forritið í 3 mánuði færðu tilkynningu gegnum forritið um það, sem og upplýsingar um að notandareikningi þínum verði eytt og persónuupplýsingar gerðar ópersónugreinanlegar að liðinni 1 viku, svo fremi sem þú endurvirkjar ekki reikninginn. Ef þú endurvirkjar skráningu í þína í forritinu verður notandaupplýsingum um þig ekki eytt.
- Breytingar á þjónustunni
Við gerum reglulega úrbætur á samskiptaleiðum okkar. Samhliða þróun á sviði nýjustu tækni skapast nýir möguleikar á að bæta þjónustuna með því að bæta við nýjum eiginleikum. Þess vegna áskiljum við okkur rétt til að gera breytingar eða uppfærslur á þjónustunni hvenær sem er. Þetta kann til dæmis að hafa í för með sér að aðgerðir í þjónustunni, sem voru til staðar þegar þú stofnaðir notandareikninginn þinn, verða fjarlægðar eða þeim breytt.
Auk þess mun Astellas hugsanlega af og til þróa uppfærðar útgáfur af forritinu og uppfæra sjálfkrafa þá útgáfu af forritinu sem þú ert að nota á fartækinu þínu. Þú samþykkir að framkvæma megi slíka sjálfvirka uppfærslu á forritinu á fartækinu þínu og að þessi samningur skuli eiga við um allar slíkar uppfærslur.
- Útilokun frá þjónustunni
Við höfum rétt á að útiloka þig frá því að nota þjónustuna I) ef grunur leikur á að einhver hafi fengið aðgang að notandareikningnum þínum með ólögmætum hætti, II) vegna brota á samningnum eða III) vegna brota á lögum eða reglugerðum. Útilokun frá þjónustunni getur átt sér stað án fyrirvara.
- Vinnsla persónuupplýsinga
Astellas mun vinna úr persónuupplýsingum um þig þegar notandareikningurinn þinn er stofnaður og þú byrjar að nota forritið og þjónustuna. Frekari upplýsingar um þetta er að finna í persónuverndarstefnu okkar í forritinu.
- Afsal ábyrgðar og takmörkun ábyrgðar
Þú samþykkir að þjónustan verði veitt „eins og hún er“. Við beitum öllum sanngjörnum ráðstöfunum til að tryggja að þjónustan virki með fullnægjandi hætti. Endrum og sinnum kann þó að vera að þjónustan verði óaðgengileg vegna tæknilegra erfiðleika sem rekja má til viðhaldsaðgerða eða annarra orsaka sem ekki eru á ábyrgð Astellas. Hvorki við, leyfisveitendur okkar né birgjar geta ábyrgst, hvorki beint né óbeint, að þjónustan eða efni hennar uppfylli kröfur þínar og væntingar, sé alltaf aðgengileg og óhindruð, sé hröð, örugg eða villulaus.
Astellas ábyrgist ekki með neinum hætti að forritið sé laust við vírusa, spilliforrit eða annars konar skaðlega forritunarkóða sem kunna að innihalda óæskilega eða skaðlega þætti og sem hugsanlega er hægt að setja upp á fartækinu þínu. Það er á þína ábyrgð að setja upp viðeigandi öryggisráðstafanir (þ. á m. vírusvarnarforrit) í því skyni að uppfylla sértæk öryggis- og rekstrarskilyrði forritsins.
Þú berð einnig ábyrgð á fartækinu þínu, sem og þeim afnotagjöldum sem kunna að falla til þegar þjónustan er notuð. Við ábyrgjumst ekki að þú getir fengið aðgang að þjónustunni og efni í henni hvenær sem er.
Samantektir og aðrar upplýsingar sem þjónustan veitir byggjast á þeim upplýsingum sem þú skráir í gegnum þjónustuna. Þú berð alla ábyrgð á þeim upplýsingum sem þú skráir í gegnum þjónustuna. Þjónustan er aðeins hjálpartæki og ætti ekki að líta á hana sem meðferðartæki. Til að greina og meðhöndla sjúkdóma skal hafa samband við lækni. Astellas tekur enga ábyrgð á neinu tjóni, beinu eða afleiddu, tapi gagna eða öðru tapi vegna rekstrartafa eða öðrum afleiddum skaða, hvers kyns sem er, vegna notkunar á þjónustunni, svo fremi sem ekki er um vísvitandi brot eða alvarlega vanrækslu af okkar hálfu að ræða.
- Óefnisleg réttindi
9.1 Almennt
Efni í þjónustunni og réttindi tengd þjónustunni (þ.m.t. öll óefnisleg réttindi, svo sem vörumerkisréttur, hönnunarréttur, hugverkaréttur o.fl., sem og upplýsingar á borð við texta, myndvinnslu, lógó, tákn, myndir og allar samsetningar þessa, auk alls hugbúnaðar sem notaður er í þjónustunni) eru í eigu Astellas, leyfisveitenda okkar eða birgja, nema annað sé tekið sérstaklega fram í samningnum. Efnið er, eða kann að vera, varið samkvæmt gildandi alþjóðalögum, þar með talið, en takmarkast ekki við, lög um hugverkarétt og önnur lög og samninga um vernd óefnislegra réttinda og eignarréttar. Þú skuldbindur þig til að fara að öllum gildandi slíkum lögum og samningum og að hvorki breyta, dylja né fjarlægja tilkynningar um eignarrétt eða önnur réttindi sem fylgja kunna slíku efni.
Nema annað sé tekið sérstaklega fram í þessum samningi veitir samningurinn þér engan rétt í tengslum við óefnisleg réttindi sem eru í eigu okkar eða notuð af okkur samkvæmt leyfi frá öðrum (þ.m.t. texti, myndvinnsla, hugbúnaður, ljósmyndir og annað myndefni, myndbönd, hljóð, vörumerki og lógó) og þú samþykkir að þú munt ekki öðlast eignarhald á slíku efni við að sækja og nota forritið og þjónustuna.
9.2 Leyfi til að nota hugbúnað
Hugbúnaður, þ.m.t. forritið, sem innifalinn er í þjónustunni, er ekki seldur þér. Þjónustunni fylgir aðeins takmarkaður, sameiginlegur og óframseljanlegur réttur til notkunar á hugbúnaði forritsins í tengslum við notkun þjónustunnar á fartækinu þínu. Við höldum fullum eignarrétti á öllum afritum af hugbúnaðinum, einnig eftir að hugbúnaðurinn hefur verið settur upp á fartækinu þínu, og þú samþykkir að þú öðlist engan eignarrétt á hugbúnaðinum með því að sækja forritið og nota þjónustuna.
Við höfum rétt á, án takmarkana, að framselja þetta leyfi, eða hluta þess, til þriðju aðila. Þú hefur ekki rétt á að framselja þetta leyfi, eða hluta þess, né flytja það eða framselja þau réttindi sem leyfinu fylgja, til þriðju aðila.
Auk þess er þér óheimilt að eyða, sundra, baksmíða, breyta eða þýða neinn hluta hugbúnaðarins, né framkvæma neinar sambærilegar aðgerðir á hugbúnaðinum, í forritinu, nema gildandi löggjöf í þínu landi leyfi slíkt.
Þú hefur leyfi til afnota af öllum hugbúnaði sem kann að vera hluti af þjónustunni, ýmist samkvæmt ákvæðum í samningnum eða í samræmi við leyfisskilmála þriðju aðila fyrir þann hugbúnað. Notkunarskilmála fyrir slíkan hugbúnað þriðju aðila er hægt að fá senda ef þess er óskað.
- Annað
Nema annað sé sérstaklega tilgreint skriflega felur samningurinn í sér heildarumgjörð allra tengsla milli þín og Astellas að því er varðar forritið og þjónustuna.
Ákvæði um hugverkaréttindi, ábyrgðartryggingu og takmörkun á ábyrgð skulu halda gildi eftir að samningurinn fellur úr gildi eða er rift.
- Gildandi lög og varnarþing
Samningurinn fellur undir danska réttarlögsögu. Ágreiningsmál sem upp kunna að koma varðandi samninginn, þjónustuna eða forritið skal leysa fyrir varnarþingi í lögsagnarumdæmi Astellas. Fyrir þig sem notanda skal þitt lögsagnarumdæmi teljast þitt varnarþing.
- Samskiptaupplýsingar
Heimilisfang:
Astellas Pharma a/s
Kajakvej 2
2770 Kastrup
Danmark
Netfang:
kontakt.dk@astellas.com